SKÓLANÁMSKRÁ
TÓNLISTARSKÓLANS Á TRÖLLASKAGA
2020 -2021. Efnisyfirlit
Formáli
Saga. 1
Jafnréttisáætlun TÁT 2
Forskóli Tónlistarskólans - 1. - 6. bekkur. 3
Hljóðfæra- og söngnám.. 4
Tréblásturshljóðfæri 5
Málmblásturshljóðfæri 7
Trommusett. 8
Píanó. 9
Fiðla. 10
Gítar. 11
Rafgítar. 12
Harmonikka. 13
Söngur. 14
Hljóð- og upptökufræði 15
Samspil og tónfundir. 16
Tónfræði 17
Námsmat. 18
Samstarf. 19
Hagnýtar upplýsingar. 20
Heimildaskrá. 22
Formáli:
Hér gefur að líta skólanámskrá Tónlistarskólans á Tröllaskaga. Í námskrá þessari er leitast við að gefa góða heildarmynd af skipulagi, námi, kennslu og sögu skólans. Í Aðalnámskrá tónlistarskóla frá árinu 2000 stendur: „Öldum saman hefur tónlist, drottning listanna, verið ríkur þáttur í lífi og starfi manna, gleði og sorgum. Tónlistin er óaðskiljanlegur hluti af menningararfi þjóða.“ Í þessum orðum felst að tónlistarnám á að vekja ánægju og örva nemendur til að iðka tónlist og njóta hennar. Til þess að svo sé þá er mikilvægt er að nemendur búi við jákvætt viðhorf til tónlistarnámsins, að foreldrar/forráðamenn sýni náminu áhuga og að þeir fylgist með framvindu þess. Hljóðfæra og söngnám byggist að mestu leyti á daglegri og reglubundinni þjálfun og er því að verulegu leyti heimanám. Án markvissra æfinga verður árangur rýr. Eðlilegt er að áhugi nemenda sé ekki alltaf samur og jafn. Ef nemandi sýnir merki um uppgjöf er mikilvægt að kennari og foreldrar leiti orsaka og lausna. Til að hjálpa til við að viðhalda áhuganum er mikilvægt að gefa börnum færi á að hlusta á tónlist. Foreldrar geta lagt sitt af mörkum með því að sækja tónlistarviðburði með börnunum. Tónlistarnám þarf að vera ánægjulegt og ánægjan felst ekki síst í stolti nemandans yfir eigin framförum og aukinni færni.
Leiðarljós
Tónlistarskólinn skal vera ein af menningarstoðum samfélagsins og taka virkan þátt í menningarlífinu. Nemendur og kennarar Tónlistarskólans skulu vera sýnilegir á hinum ýmsu samkomum byggðarlagsins og þannig efla stöðu tónlistar í samfélaginu. Æskilegt er að kennarar, jafnt sem nemendur, fái tækifæri til að stunda list sína og að samfélagið geti notið þess.
Hlutverk
Í Aðalnámskrá tónlistaskólanna kemur fram að tónlistarskóli skal vera opinn fyrir alla og sinna almennu tónlistaruppeldi. Tónlistarskólinn þarf því að uppfylla mismunandi kröfur, vera fyrir nemendur sem læra einungis sér til skemmtunar og fyrir nemendur sem vilja búa sig undir frekara tónlistarnám og skyldar greinar á háskólastigi. Hlutverk skólans er að stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, njóta og skilja tónlist. Efla tónlistarlíf almennt og gera nemendur virkari og sjálfstæðari hlustendur. Starfsemi skólans byggir meðal annars á þeim grunni að markvisst tónlistarnám stuðli að auknum þroska nemenda. Í Aðalnámskrá tónlistarskólanna er því haldið fram að tónlistarnám þjálfi nemendur í öguðum vinnubrögðum, bæði sem einstaklinga og í hópi, bæti sjálfsímynd og árangur í almennu námi. Skólinn hyggst ná markmiðum sínum með því að veita almenna tónlistarfræðslu, þ.e. að kenna nemendum sínum að leika á hljóðfæri, syngja og skapa eigin tónlist.
Um Tónlistarskólann á Tröllaskaga
Á skólaárinu 2020. -2021. Eru í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga eru nemendur í hljóðfæranámi 205 auk barnakóra og nemenda 1.-4. Bekkjar sem eru í forskóla. Kennslan fer fram í húsnæði Tónlistarskólans í Víkurröst á Dalvík og í Árskógarskóla, Menningarhúsinu Tjarnarborg við Aðalgötu 13 í Ólafsfirði og svo húsnæði skólans á Siglufirði við Aðalgötu 37.
Í skólanum starfa 16 tónlistarkennarar ýmist í hluta- og fullu starfi. Í skólanum er kennt á píanó, fiðlu, gítar, blokkflautu, þverflautu, trompet, klarínett, saxófón, rafmagnsgítar, bassagítar, trommur og einnig er kenndur söngur. Forskólinn er fyrir nemendur 1.-4. Bekkjar í grunnskólanum. Þar er lögð áhersla á söng, hrynþjálfun og grundvallarþekkingu á nótum. Samvinna milli Tónlistarskólans og Grunnskóla á Tröllaskaga er í góðum farvegi og í stöðugri þróun. Stefnt er að því skólaárið 2020-2021 að auka samstarf tónlistar-, grunn- og leikskóla á Tröllaskaga enn frekar.
Saga
Tónlistarskólinn á Tröllaskaga var stofnaður 1. ágúst 2016 og er samrekin af Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð.
Innritun og skólagjöld
Nýir nemendur eru skráðir í skólann að vori og er innskráning auglýst sérstaklega. Skráning fer fram á netinu á vefsíðu tónlistarskólans.
Slóðin er www.tat.is, gjaldkeri Dalvíkurbyggðar sér um innheimtu skólagjalda.
Skólareglur
Við Tónlistarskólann á Tröllaskaga gilda allar almennar umgengisreglur.
Við hvetjum nemendur til þess að:
Foreldra biðjum við um að:
Jafnréttisáætlun Tónlistarskólans á Tröllaskaga
Áætlunin var gerð í september 2019 og þarf að endurskoða árlega.
Starfsmenn
Áætlunin byggir á lögum nr. 10/2008. Samkvæmt þeim skal koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum fyrir alla.
Þess skal gætt:
Nemendur:
Tónmennt í grunnskólum 1. - 6. bekkur
Tónmennt er undirbúningur fyrir allt tónlistarnám. Þar er lögð áhersla á söng og hrynþjálfun í gegnum leiki, sem gefur góðan grunn fyrir námið í framtíðinni. Í forskólanum er byggt á markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla í tónmennt.
Markmið
Kennslufyrirkomulag Tónlistarkennsla í 1. - 4. bekk fer aðallega fram í gegnum hlustun, söng, dans, leiki og notkun skólahljóðfæra. Jafnframt þessu vinna börnin ýmis tónlistartengd verkefni.
Námsefni Notaðir eru fjölbreyttir textar og sönglög héðan og þaðan, ýmis tónverk s.s. Karnival dýranna, Pétur og Úlfurinn og Tobbi túba. Notast er við kennslubókina Það var lagið sem er hugmyndaefni í tónmennt fyrir 1. – 4. bekk. Jafnframt þessu eru notaðar ýmiss konar bækur, blöð og verkefni úr öllum áttum.
Kennslugögn Skólahljóðfæri (Orff hljóðfæri), geisladiskar og ýmiss konar verkefni.
Námsmat Virkni, áhugi, hegðun og hæfileikar til samvinnu eru þeir þættir sem mestu máli skipta í sambandi við námsmat.
Hljóðfæra- og söngnám
Í Aðalnámskrá tónlistarskóla (2000) er gerð grein fyrir þeim markmiðum sem nemendur eiga að hafa náð við lok grunnnáms, miðnáms og framhaldsnáms.
Nám í tónlistarskólum skiptist í þrjá megináfanga: grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Til grunnnáms telst einnig fornám, þ.e. samþætt byrjendanám, sniðið að aldri og þroska ungra barna. Þessi áfangaskipting er óháð uppbyggingu almenna skólakerfisins. Engu að síður má finna þar nokkra samsvörun. Þannig samsvarar grunnnám u.þ.b. neðri bekkjum grunnskóla, miðnám efri bekkjum og framhaldsnám svarar til náms á framhaldsskólastigi, þ.e. að háskólastigi. Slík viðmiðun er þó engan veginn einhlít þar sem nemendur hefja tónlistarnám á ýmsum aldri og námshraði getur verið mismunandi. Lok náms í tónlistarskólum er því ekki unnt að binda við tiltekinn aldur. Lengd námsáfanga miðast m.a. við kennslustundafjölda (Aðalnámskrá tónlistarskóla 2000:17).
Hljóðfæranám í Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar fer fram í einkatímum. Fullt nám er 2 x 0,5 klst. eða 1 x klst. í viku hverri. Í upphafi er lögð áhersla á undirstöðuatriði í hljóðfæraleik, nótnalestri, túlkun, tækni og tónfræði.
Byrjendur:
Kennsluaðferð: Kennslan fer fram í einkatímum, 0,5 klst. í senn einu sinni til tvisvar sinnum í viku. Kennt er í gegnum æfingar og leiki og leitast við að nálgast nemandann út frá áhugasviði hans sjálfs.
Heimaæfingar: Mælt er með því að byrjandi í námi leiki á hljóðfærið heima hjá sér í u.þ.b. 15 mínútur dag hvern.
Grunnnám:
Kennsluaðferð: Kennslan fer fram í einkatímum, 0,5 klst. í senn einu sinni til tvisvar sinnum í viku. Kennt er í gegnum æfingar og leiki og leitast er við að nálgast nemandann út frá áhugasviði hans sjálfs. Reynt er að hafa nemendur í samspili þar sem því verður við komið.
Heimaæfingar: Mælt er með því að nemandi í grunnnámi æfi allt að klst. á dag við lok grunnnáms.
Miðnám:
Kennsluaðferð: Kennslan fer fram í einkatímum, 1 klst. í senn einu sinni í viku. Kennt er í gegnum æfingar og leiki og leitast er við að nálgast nemandann útfrá áhugasviði hans sjálfs. Reynt er að hafa nemendur í samspili þar sem því verður við komið.
Heimaæfingar: Mælt er með því að nemandi í grunnnámi æfi allt að 2 klst. á dag við lok miðnáms.
Tréblásturshljóðfæri
Hljóðfæri tréblástursdeildar sem hægt er að læra á við Tónlistarskólanum á Tröllaskaga eru: blokkflauta, þverflauta, klarínett, og saxófónn. Æskilegt er að þeir nemendur sem hefja nám á tréblásturshljóðfæri séu orðnir átta til níu ára, en það er nokkuð háð stærð nemanda og þroska. Kennt er samkvæmt greinarnámskrá Menntamálaráðuneytisins um tréblásturshljóðfæri. Námskrána má nálgast í PDF skjali á vef Menntamálaráðuneytisins. http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/ATreblastur.pdf
Blokkflauta
Blokkflauta og afbrigðin hennar alt-, tenór- og bassaflauta; eru elstu tréblásturshljóðfærin. Ekki var óalgengt í fornöld að forverar blokkflautunnar væru gerðir úr beinum dýra eða jafnvel úr beinum manna. Þær blokkflautur sem eru notaðar enn í dag urðu til á endurreisnartímabilinu og smá þróun fór fram á barokktímanum. Enn þann dag í dag eru framleiddar „endurreisnar-“ (renessaince) og svo kallaðar „barokk-“ flautur. Þessar blokkflautur voru fyrirmyndir allra hinna tréblásturshljóðfæranna sem hér koma á eftir.
Þverflauta
Þótt þverflauta sé framleidd úr málmi nú til dags, var hún einu sinni gerð úr tré. Þróun sinfóníuhljómsveita sem átti sér stað í kringum 1800 leiddi til þess að þessi tréflauta gat ekki keppt lengur við hina fjölmennu og öflugu hljómsveit. Í stað tréflautunnar kom ný, töluvert endurbætt, þverflauta sem gerð var úr málmi og varð hún eitt mikilvægasta hljóðfærið í sinfóníuhljómsveitum. Þverflautan er einstök að því leyti að tónninn myndast við yfirblástur þegar maður blæs skáhallt á gatið sem er á munnstykkinu, í þverflautu þarf því ekki neins konar blað til að búa til tón.
Klarínett
Orðið klarínett er dregið úr ítölsku þar sem „clarino“ merkir trompet, enda fannst þeim forðum daga hljómurinn vera eins og í trompet. Klarínettafbrigði eru á þriðja tug talsins en flest þeirra eru annað hvort löngu horfin eða sjaldan notuð. Við kennslu er oftast notuð ein tegund, svokallað „B-klarínett“ en einnig eru mörg dæmi um notkun „C-klarínett“ sem er sérstaklega ætlað yngri börnum.
Saxófónn
Nafnið saxófónn er dregið af hljóðfærasmíðameistaranum Adolphe Sax sem bjó þetta hljóðfæri til í byrjun 19. aldar. Þótt hann sé framleiddur úr málmi tilheyrir hann þessum hópi vegna þess að munnstykkið er í raun og veru klarínettmunnstykki og takka-kerfið sem er notað er svipað og hjá þverflautunni. Í tónlistarskólunum er venjulega kennt á tvenns konar saxófón, alt- og tenórsaxófón. Þó til séu fleiri tegundir, eru þeir fyrrnefndu algengastir. Það er stór munur á þessum tveimur hljóðfærum. Tenórsaxófónn er þó nokkuð stærri en altsaxófónn, sem þýðir að yngstu nemendurnir sem geta hafið nám á tenórsaxófón eru oftast í kringum 14 - 15 ára gamlir, en þó geta margir byrjað mun fyrr ef þeir eru nóg sterkir til að halda hljóðfærinu og hafa nógu stórar hendur. Á altsaxófón geta flestir spilað sem eru hæfir til þess að læra á B-klarínett, en ef nemandinn rétt nær götunum og tökkum á klarínetti þá eru hendurnar enn þá of stuttar fyrir altsaxófón.
Byrjendur:
Áherslur: Byrjendur þurfa í fyrstu að kynnast hljóðfærinu; að læra hvernig á að mynda hljóð og hvernig öndun er háttað (þindaröndun). Einnig að standa rétt, halda hljóðfærinu rétt,o.s.frv. Þegar nemandinn hefur náð tökum á þessum grunn þáttum má byrja að læra fyrstu barnalögin sem eru með tveimur eða þemum nótum. Síðan er tónsviðið breikkað í samræmi við erfiðleika hljóðfærisins og einnig í samræmi við getu nemandans.
Námsefni: Námsefni er valið í samræmi við þarfir nemenda og hljóðfæris hverju sinni:
Grunnnám:
Áherslur: Grunnnám kallast það ferli sem nemendur fara í gegnum frá byrjunarstigi til svokallaðs grunnstigs sem er skilgreint sem áfangapróf. Í þessu ferli er ýmislegt kennt, t.d. að lesa eftir nótum og spila tónstiga. Hér leggjum við einnig grunn að því að móta taktskyn og tónheyrn. Nemendur stunda samspil þangað til þeir eru tilbúnir að takast á við þær kröfur sem eru settar samkvæmt námskrá tónlistarskólanna. Þetta er algengasta áfangapróf sem nemendur taka í tónlistarskólunum. Þótt kennslan sé einstaklingsbundin er samspilið líka mjög mikilvægt og fylgir náminu alla tíð.
Námsefni: Við lok grunnnáms á nemandinn að hafa lokið tveimur fyrstu heftunum af „Midt i blinken“ og einnig þremur fyrstu heftunum af „Flöjten och jag“ og „Vi spelar klarínett“ auk ítarefnis frá kennara.
Miðnám:
Áherslur: Í miðnámi er byggt ofan á þá tækni og færni sem náðst hefur í grunnnáminu og hún aukin. Lög og verkefni þyngjast í samræmi við getu nemenda. Kenndir eru mismunandi tónlistarstílar. Í miðnámi aukast kröfur til listrænnar túlkunar.
Námsefni: Í miðnámi er notað kennsluefni sem miðast við hvert hljóðfæri fyrir sig, áhugasvið nemandans og getu.
Málmblásturshljóðfæri
Málmblásturshljóðfæri eru skilgreind sem blásturshljóðfæri gerð úr málmi með annaðhvort bolla- eða trektlöguðu munnstykki. Varirnar eru notaðar til að búa til titring sem setur loftstrauminn á hreyfingu. Þetta er kallað „að purra“. Tónhæðin ákvarðast af lengd rörsins sem blásið er í og hversu hátt er „purrað“. Með því að hreyfa ventlana eða sleðann breytir maður lengd rörsins og fær þannig út misháa tóna. Upphaf málmblásturshljóðfæra má rekja til grófgerðra dýrahorna sem voru gerð að nokkurskonar röri með því að skera burt mjórri enda hornanna. Fyrstu sögulegu heimildir um málmblásturshljóðfæri koma frá Austurlöndum nær. Þar er talað um hljóðfæri sem á hebresku heitir Schofar. Schofar er gert úr hrútshorni og er notað enn þann dag í dag hjá gyðingum við ýmis hátíðleg tækifæri. Hjá Grikkjum og Rómverjum voru notuð bæði bein og sveigð horn. Slík horn hafa einnig fundist á Írlandi og í Danmörku. Þessi hljóðfæri sem voru notuð fyrir um 2000 árum voru ýmist úr tré eða málmi. Ventlahljóðfærin sem við þekkjum í dag voru þróuð af William Weiprecht í Þýskalands á fyrrihluta 19. aldar.
Við Tónlistarskólann á Tröllaskaga er hægt að læra á trompet, horn, básúnu og túbu. Nemendur geta hafið nám á aldrinum 8 – 9 ára. Það er þó að mestu háð stærð nemenda hvenær hægt er að byrja, en einnig hvaða málmablásturshljóðfæri er valið. Best er ef nemandi er búinn að fá fullorðins framtennur áður en nám hefst. Kennt er samkvæmt greinarnámskrá Menntamálaráðuneytisins um málmblásturshljóðfæri. Námskrána má nálgast í PDF skjali á vef Menntamálaráðuneytisins http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar//nr/3955
Nám við Tónlistarskólann skiptist í þrjá áfanga: byrjendur, grunnnám og miðnám.
Byrjendur:
Áherslur: Fyrsta árið er lögð áhersla á að kenna góða öndunartækni og munnstöðu. Lært er að purra á varir og er reiknað með að nemandinn geti spilað fyrirframgefna tónhæð eingöngu með vörum og einnig á munnstykki. Mikið er lagt upp úr því að spila langa tóna til að styrkja öndun og blásturstækni. Einnig er lagt upp með að í lok vetrar geti nemandi haft tónsvið upp á eina til eina og hálfa áttund. Grunnatriði nótnalesturs eru kennd samhliða lögum og tónstigum.
Námsefni: Nemendur þurfa að kaupa bókina „Midt i blinken“. Mismunandi er eftir hljóðfærum hvaða bók er keypt. Dæmi: „Midt i blinken trombone“ er fyrir básúnu nám. Einnig er ítarefni frá kennara.
Grunnnám:
Áherslur: Í grunnnámi er haldið áfram að byggja undir tækni í öndun og blæstri. Tónsvið er víkkað upp í u.þ.b. tvær áttundir og aukin áhersla er á tónstiga. Lög þyngjast í samræmi við getu nemenda og kenndir eru mismunandi tónlistarstílar. Ný tækniatriði í grunnnámi eru bindiæfingar (flexibility), þjálfun úthalds, tónstigum fjölgað og styrkleikabreytingar þjálfaðar.
Námsefni: Við lok grunnnáms á nemandinn að hafa lokið 2 tveimur fyrstu heftunum af „Midt i blinken“ auk ítarefnis frá kennara.
Miðnám:
Áherslur: Í miðnámi er byggt ofan á þá tækni og færni sem náðst hefur í grunnnáminu og hún aukin. Lög og verkefni þyngjast í samræmi við getu nemenda. Kenndir eru mismunandi tónlistarstílar. Í miðnámi aukast kröfur til listrænnar túlkunar.
Námsefni: Í miðnámi er notað kennsluefni sem miðast við hvert hljóðfæri fyrir sig, áhugasvið nemandans og getu.
Trommusett
Trommusett eins og við þekkjum það í dag er ekki gamalt hljóðfæri þó trommur sem slíkar eigi sér lengri sögu. Í trommunáminu er aðaláherslan lögð á leik á hefðbundið trommusett auk þess sem klassískur sneriltrommuleikur er mikilvægur þáttur í náminu. Til að geta lært á trommusett þarf nemandinn að hafa náð þeirri stærð að ná til gólfs þegar setið er á trommu stól og þeim styrk sem þarf til að geta beitt trommukjuðum. Ætla má að í flestum tilfellum hafi nægilegri stærð og styrk verið náð um 8 ára aldur þó hugsanlega þurfi í einhverjum tilfellum að aðlaga námið fyrstu árin. Þeir sem hyggja á nám í trommuleik þurfa að hafa trommusett, æfingaplatta og kjuða af heppilegri stærð og þyngd til afnota frá upphafi náms. Þó rafmangs- og æfingatrommusett geti komið að góðum notum við heimaæfingar er mjög mikilvægt að nemendur öðlist reynslu í leik á hefðbundið trommusett.
Byrjendur:
Áherslur: Fyrsta árið fer að stórum hluta í það að halda rétt á kjuðum og fá sannfærandi áslátt á hljóðfærið ásamt því að læra samhliða lestur nótna á sneriltrommu og trommusett. Farið er í grunntaktbrigði eins og popp og rokk takta ásamt því að kynnast „shuffle“ takti lítillega.
Námsefni: Trommubók Óla Hólm og Stick Control.
Grunnnám:
Áherslur: Uppbygging grunnnáms gerir ráð fyrir því að nemendur ljúki því á þremur árum þó
námshraði geti auðvitað verið mismunandi. Skipulag námsins tekur mið af þeim ramma sem námskrár Menntamálaráðuneytisins setja auk sértækra markmiða einstakra skóla og af sjálfsögðu áhuga og þörfum nemenda. Námið er einstaklingsmiðað og viðfangsefnin breytileg þar sem nemendur eru ólíkir og er það hlutverk kennarans að finna þá leið sem hentar hverjum og einum til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að.
Námsefni: Námsefni miðast við áhugasvið, getu og hæfni einstaklings en áfram er haldið með bók Óla Hólm, Stick Control, bók Péturs Östlund, Gary Chaffee, Funk Studies og fl.
Miðnám:
Áherslur: Þegar komið er í miðnám eykst umfang námsins. Til að mæta auknu umfangi má búast við að námstíminn lengist. Til viðmiðunar er talað um að námið geti tekið 4 til 5 ár en líkt og í grunnnámi getur námshraði þó verið mismunandi. Þættir sem hafa áhrif á námshraða eru t.d. ástundun, aldur og þroski nemenda.
Námsefni: Námsefni miðast við áhugasvið, getu og hæfni einstaklings en áfram er haldið með bækur eins og Stick Control, bók Péturs Östlund, Gary Chaffee, Funk Studies og fl. ásamt öðrum bókum sem innihalda mismunandi taktbrigði og stíltegundir.
Píanó
Talið er að fyrsta píanóið hafi verið smíðað í kringum aldamótin 1700. Almennt er uppfinningin eignuð Ítala að nafni Bartolomeo Cristofori. Heitið píanó kemur til af því að á Ítalíu heitir hljóðfærið pianoforte sem á íslensku myndi vera „sterkt- veikt“. En hljóðfærið ber þetta heiti vegna þess eiginleika að hægt er stjórna styrkleika tónanna með því að slá mis fast á lyklana á hljómborðinu. Önnur heiti á íslensku eru flygill eða slagharpa. Forveri píanósins var semball og harpsicord. Þau hljóðfæri voru mikið notuð á barrokktímanum á 16. öld og fram á 18. öldina. Þau voru mun hljómminni en píanóið og höfðu þann annmarka að tónninn lifði mjög stutt og var alltaf með sama styrk sem gerði það að verkum að tónlistin hljómar mjög einhæf. Píanó var mjög lítið þekkt til að byrja með, en á sígilda tímabilinu og á því rómantíska þá varð það eitt af vinsælustu hljóðfærunum. Helstu gerðir píanóa eru tvær, upprétt píanó og flygill. Á uppréttu píanói liggja strengirnir lóðrétt en á flygli lárétt.
Æskilegur byrjunaraldur í píanónámi er sjö til átta ár. Þó er hægt að byrja fyrr ef nemandinn hefur öðlast nægilegan þroska. Skilyrði fyrir píanónámi er að nemandinn hafi óhindraðan aðgang að píanói til æfinga.
Byrjendur:
Áherslur: Fyrsta árið er lögð áhersla á að kenna góða fingratækni, fínhreyfingar fingranna, handstöðu og rétta líkamsstöðu. Grunnatriði nótnalesturs eru kennd samhliða lögum og tónstigum.
Námsefni: Píanóleikur 1.hefti e. Björgvin Þ.Valdimarsson, Vi spelar piano I, Æfingar fyrir byrjendur e. Czerny og einnig er ítarefni frá kennara.
Grunnnám:
Áherslur: Í Grunnnámi er haldið áfram að þróa fingratæknina. Nótnalestur verður æ mikilvægari þáttur kennslunnar. Lög þyngjast í samræmi við getu nemenda og eru kenndir mismunandi tónlistarstílar. Aðaláherslan er lögð á að byggja góðan grunn í tækni og tónfræði.
Námsefni: Við lok grunnnáms á nemandinn að hafa lokið þremur fyrstu heftunum af Píanóleik e. Björgvin Þ.Valdimarsson, fyrstu 16 - 20 æfingum af Czerny: Æfingar fyrir byrjendur eða Denes Agay: Learning to play piano, auk ítarefnis frá kennara.
Miðnám:
Áherslur: Í miðnámi er byggt ofan á þá tækni og færni sem náðst hefur í Grunnnáminu og hún aukin. Lög og verkefni þyngjast í samræmi við getu nemenda. Kenndir eru mismunandi tónlistarstílar. Í miðnámi aukast kröfur til listrænnar túlkunar.
Námsefni: Í miðnámi er notað kennsluefni sem miðast við píanó, áhugasvið nemandans og getu. Nokkur dæmi: Æfingabækur: Burgmüller: 25 Progressive pieces op. 100, William Gillock: Accent on Black Keys. Önnur tónverk: J.S.Bach: Nótnabók Önnu Magdalenu, Béla Bartók: For Children I og II og Elías Davíðsson: Fimmur, auk ítarefnis frá kennara.
Fiðla
Fiðlan er strokhljóðfæri með fjórum strengjum og hefur hæst tónsvið strokhljóðfæra. Núverandi form fiðlunnar varð til á 16. - 17. öld á Ítalíu. Það sýnir mikilvægi fiðlunnar í tónlistarsögunni að mörg þúsund tónverk voru samin fyrir fiðluna gegnum þessar aldir og er enn verið að semja tónverk fyrir fiðlu nú til dags. Fiðlan er notuð á mjög fjölbreyttan hátt, allt frá klassískri tónlist t.d. sinfóníum, óperum, strengjakvartettum, einleik o.s.frv., til þjóðlaga, djass- og popptónlistar.
Heppilegasti aldur til að byrja að stunda fiðlunám er 5 - 6 ára. Á þessum aldri eru liðamótin enn mjög teygjanleg og þess vegna best að móta handstöðuna.
Byrjendur:
Áherslur: Í upphafi þarf nemandinn að læra a greina muninn á milli strengjanna fjögurra með boganum. Að því loknu að spila í svokallaðri „fyrstu stöðu“ á hvern streng. Með alls kyns leikjum, er aðaláherslan lögð á að þróa taktskyn og tónheyrn.
Námsefni: Fiðlu ABC eftir Géza Szilvay, Colour Strings Method, Fiedel Max eftir Andrea Holzer-Rhomberg, Fiddle Time Joggers eftir Kathy og David Blackwell, Violinschule eftir Joseph Bloch og Fyrstu fiðlugripin og lögin 1. og 2. hefti eftir Gígju Jóhannsdóttur
Grunnnám:
Áherslur: Þegar markmiðum byrjendanámsins er náð er hægt að læra flóknari bogatækni svo sem
„détachée“,“legato“,“staccato“ o.s.frv. Þessi fræðiheiti merkja hvernig á að spila með boganum, slitið, bundið og þess háttar. Með vinstri hendinni lærir nemandinn að spila vipratóna og að spila í annarri og þriðju stöðu. Smám saman eykst lagavalið. Aðaláherslan er lögð á fjölbreytileika svo hægt sé að túlka mismunandi lög á mismunandi hátt. Mikilvægur þáttur í náminu er að stunda samspil. Í samspilshópum geta verið ýmsar samsetningar allt frá dúettum til stórra sveita, píanósamleiks og alls kyns öðruvísi samsetningar koma vel til greina.
Námsefni: Tónstigar eftir Joseph Bloch, Fingraaæfingar eftir O. Sevcik, Æfingar eftir Kayser, Fiðlukonsert eftir O. Rieding, F.Seitz, F. Küchler eða A. Vivaldi og margt fleira.
Miðnám:
Áherslur: Í miðnámi er byggt ofan á þá tækni og færni sem náðst hefur í grunnnáminu og hún aukin. Lög og verkefni þyngjast í samræmi við getu nemenda. Kenndir eru mismunandi tónlistarstílar. Í miðnámi aukast kröfur til listrænnar túlkunnar.
Námsefni: Tónstigar og hljómar 3 áttundir, Fingraæfingar e. O. Sevcik og H. Schradieck, Æfingar eftir J. Dont og F. Wohlfahrt, Sonötu eftir G. F. Handel, Air Varié eftir Ch. Dancla, Allegro eftir J. Fiocco, Csárdás eftir V. Monti, Sónatina í D-dúr eftir Fr. Schubert, Fantasiur eftir G. ph. Telemann og margt fleira.
Gítar
Sögu gítarsins má rekja langt aftur í aldir og hefur hann verið vinsælt hljóðfæri bæði í klassískri tónlist sem og alþýðutónlist. Gítarinn eins og við þekkjum hann í dag, þ.e. sex strengja gítar, kemur þó fyrst til sögunnar í lok 16. aldar og kallast einfaldlega klassískur gítar. Aðrar gerðir gítara eru einnig vinsælar í dag, s.s. rafgítar og þjóðlagagítar, og eru þær gerðir fyrst og fremst notaðar í rytmískri tónlist.
Kennt er á klassískan gítar og seinna er möguleiki að hefja nám á rafgítar og bassa. Grunnur námsins er hinn klassíski gítar, sérstaklega með tilliti til tækni og nótnalesturs. Rytmísk tónlist getur verið hluti af náminu eftir að grunnfærni er náð á hljóðfærið. Miðað er við að nemendur geti hafið nám á gítar um sjö ára aldur og getur skólinn í flestum tilvikum útvegað byrjendum hljóðfæri, en ætlast er til að nemendur eignist sitt eigið hljóðfæri er líður á námið. Þá ber nemendum og foreldrum að hafa samráð við kennara um val á hljóðfæri. Auk hljóðfæris þarf nemandi að hafa aðgang að nótnastandi heima fyrir, fótstól og taktmæli því námið byggist að stórum hluta á heimanámi.
Byrjendur:
Áherslur: Í byrjun námsins er mikilvægt að nemandinn læri strax rétta líkamsbeitingu og stöðu hljóðfæris, tileinki sér afslöppuð vinnubrögð og rétta tækni. Fyrst fæst nemandinn við að plokka lausa strengi og notar fingur hægri handar, p, i, m, a. Mjög fljótlega eða strax kemur vinstri höndin inn, griphöndin. Fyrstu laglínurnar byrja á g‘ (laus strengur) og er unnið út frá því í báðar áttir í c og g dúr í fyrstu stöðu vinstri handar.
Námsefni: Efni af vefnum eythorsson.com, „Gitarren och jag“, „Gítartónar“ auk ítarefnis.
Grunnnám:
Áherslur: Áframhaldandi tæknivinna, notkun fríslaga sem og niðurslaga. Áhersla á að nemandinn hafi náð tökum á notkun fingra hægri handar, (p, i, m, a,). Nemandi geti beitt vibrato og kunni skil á einföldum gripum og þvergripum. Aukin fjölbreytni í stíltegundum.
Námsefni: Efni af vefnum eythorsson.com, „Gitarren och jag“ annað og þriðja hefti auk ítarefnis.
Miðnám.
Áherslur: Í miðnámi er byggt ofan á þá tækni og færni sem náðst hefur í grunnnáminu og hún aukin. Lög og verkefni þyngjast í samræmi við getu nemenda. Kenndir eru mismunandi tónlistarstílar. Að sama skapi vaxa kröfurnar til nemandans hvað varðar tónmyndun, tækni, og túlkun. Auk þess sem nemandi hefur kynnst á grunnstigi þarf hann nú einnig að beita jafnri og lipurri fingratækni, sem og hafa gott vald á þvergripum, styrk og geti spilað skýrt. Nemandinn komi einnig betur til skila styrkleikabreytingum og augljósum andstæðum, auk smekklegrar notkunar vibrato. Í miðnámi á nemandi að vera búin að kynnast notkun tremolo, pizzicato, rasgueado, flaututónum og geti stillt hljóðfærið sjálfur. Þættir eins og spuni, tónsköpun og leikur eftir eyra eru einnig mikilvægir. Í miðnámi aukast kröfur til listrænnar túlkunar.
Námsefni: Efni af vefnum www.eythorsson.com auk ítarefnis.
Rafgítar
Saga rafgítarsins er eins og gefur að skilja ekki mjög löng, en fyrstu heimildir eru síðan 1932. Þá var þörf fyrir hljómsterkari gítar í stórsveitum. En á sjötta áratugnum ruddi hann sér til rúms í rytmablús og með tilkomu rokktónlistar. Allar götur síðan hefur hann notið gríðarlegra vinsælda. Einnig er gítarinn sérlega áberandi sem undirleikshljóðfæri alþýðusöngs. Rafgítarinn er mikilvægt hljóðfæri í rytmískri tónlist og er höfuðáherslan á stíltegundirnar blús, rokk, popp og djass. Í byrjun þó einkum blús og rokk, en djassinn kemur inn með meiri þunga er líður á námið. Í flestum tilvikum er leikið með sérstakri gítarnögl en einnig er hann oft plokkaður. Hentugur aldur til að byrja að læra á rafgítar er á bilinu 10 - 11 ára.
Byrjendur:
Áherslur: Í upphafi náms fæst nemandi við einföld lög og laglínur í heimastöðu. Nemandinn byrjar að tileinka sér helstu hljóma og hljómasambönd auk þess að læra 12 takta blús form. Tónstigar fléttast inn í þetta á byrjunarstigum og leggja grunn að fyrstu skrefum spuna. Nemandinn fæst við verkefni sem krefjast bæði notkunar gítarnaglar, sem og plokks með fingrum hægri handar.
Námsefni: El Gitarre, Fast track 1, Guitar method auk ítarefnis.
Grunnnám:
Áherslur: Námið byggist á góðri kunnáttu hljóma, sem og tónstigum, sem leiðir svo til spuna sem er mjög stór og mikilvægur þáttur. Í öllu rythmísku námi er rík áhersla lögð á samspil nemenda og á það einnig við um rafgítarnemendur. Segja má að góð þekking á mögnurum og jaðartækjum sé einnig nauðsynleg því það er stór hluti af tónmynduninni.
Námsefni: Guitar method: blues, rock, djass auk ítarefnis.
Harmonikka
Harmonikkur eru fáanlegar í ýmsum stærðum og gerðum og framleidd eru viðeigandi hljóðfæri fyrir alla aldurshópa frá um það bil 5 ára aldri. Mikilvægt er að kaupa ekki of stórt hljóðfæri fyrir byrjendur. Harmonikkur eru ýmist með hljómbassa eða tónbassa og hnappaharmonikkur eru framleiddar með þrenns konar gripakerfi. Miðað er við að nemendur stundi nám á hnappaharmóniku með tónbassa og er námið í samræmi við Aðalnámskrá tónlistarskóla frá árinu 2000.
Nauðsynegt er að harmónika sé á heimili þess barns sem ætlar í harmonikkunám. Hann þarf að hafa aðstöðu og næði til þess að æfa sig daglega heima, því mikilvægt er að hann nái að einbeita sér vel og hlusta. Hvatning heima fyrir örvar alltaf barn í námi.
Byrjendur:
Áherslur: Í fyrstu er lögð áhersla á að nemandinn kynnist hljóðfærinu, hlutverki belgsins og tónmyndun. Mikilvægt er að nemandinn temji sér rétta líkamsbeitingu þegar leikið er á hljóðfærið. Samhliða námi á hljóðfærið sjálft lærir nemandinn grunnatriði nótnalesturs.
Námsefni: Nemendur þurfa að kaupa bókina Harmonikkan mín. Gott er að byrja með bókina „Spela dragspel med Lars Holm“ og „Accordion Course 1-5“ eftir Palmer/Hughes. Einnig er ítarefni frá kennara.
Grunnnám:
Áherslur: Í grunnnámi er haldið áfram að byggja upp belgtækni. Að nemandi geri sér grein fyrir mikilvægi hentugrar fingrasetningar, heyranlegum styrkleikabreytingum og vel mótaðri handstöðu. Aukin áhersla er á tónstiga. Lög þyngjast í samræmi við getu nemenda og kenndir eru mismunandi tónlistarstílar. Tónstigum fjölgar og styrkleikabreytingar eru þjálfaðar.
Námsefni: Við lok grunnnáms á nemandinn að hafa lokið „Accordion Course 1-4“ eftir Palmer/Hughes auk ítarefnis frá kennara.
Miðnám:
Áherslur: Í miðnámi er byggt ofan á þá tækni og færni sem náðst hefur í grunnnáminu og hún aukin. Lög og verkefni þyngjast í samræmi við getu nemenda. Kenndir eru mismunandi tónlistarstílar. Í miðnámi aukast kröfur til listrænnar túlkunar.
Námsefni: Í miðnámi er notað kennsluefni sem miðast við hvern nemanda fyrir sig skv. Aðalnámskrá auk ítarefnis frá kennara.
Söngur
Söngnám hefur nokkra sérstöðu miðað við hljóðfæranám. Hæfilegt þykir að hefja söngnám 17 - 18 ára en þó er það háð þroska einstaklingsins. Undirstöðuatriði söngnáms eru raddbeiting og öndun auk réttrar líkamsbeitingar. Túlkun texta, fallegur framburður og leikræn tjáning eru mikilvægir þættir í náminu. Í söngtímum er sungið með undirleik. Í náminu er m.a. kennt að syngja tónstiga og hljóma í dúr og moll. Í samsöngstímum fá nemendur tækifæri til að syngja í minni og stærri hópum auk þess að syngja fyrir aðra nemendur söngdeildar.
Byrjendur:
Áherslur: Markmiðið er að nemandinn:
Námsefni: Efni er einstaklingsmiðað hverju sinni og fer eftir rödd og áherslum nemandans.
Grunnnám:
Áherslur: Markmiðið er að nemandinn:
Námsefni: Efni er einstaklingsmiðað hverju sinni og fer eftir rödd og áherslum nemandans.
Miðnám:
Áherslur: Í miðnámi er byggt ofan á þá tækni og færni sem náðst hefur í grunnnáminu og hún aukin. Lög og verkefni þyngjast í samræmi við getu nemenda. Kenndir eru mismunandi tónlistarstílar. Í miðnámi aukast kröfur til listrænnar túlkunar.
Framan af er nemandi á grunnstigi sem getur svo leitt af sér grunnpróf í framhaldinu. Til að uppfylla þau skilyrði þarf nokkuð víðtæka kunnáttu og þekkingu á hljóðfærinu og notkun þess. Á þessum atriðum eru gerð ýtarleg skil í Aðalnámskrá rytmískra hljóðfæra, þar sem popp-djass söngur tilheyri flokki rytmískra hljóðfæra.
Námsefni: Efni er einstaklingsmiðað hverju sinni og fer eftir rödd og áherslum nemandans.
Söngnám í Rytmísk tónlist
Söngnám hefur talsverða sérstöðu samanborið við hljóðfæranám. Hljóðfæri söngnemandans, röddin, er hverjum og einum gefin. Hún er hluti líkamans, einstök og óendurnýjanleg. Bakgrunnur nemenda, sem hefja söngnám samkvæmt rytmískri námskrá, er mjög breytilegur. Sumir hafa stundað hljóðfæranám frá unga aldri, aðrir sungið með hljómsveitum eða tekið þátt í markvissu kórstarfi, stundað klassískt söngnám eða ekki hlotið neina formlega tónlistarþjálfun. Taka þarf tillit til þessara atriða í náminu. Þau geta haft áhrif á framvindu námsins og því getur námshraði nemenda í söng verið afar mismunandi. Nám í söng getur hafist þegar nemendur hafa náð líkamlegum þroska og raddir þeirra stöðugleika eftir breytingar gelgjuskeiðsins. Á undanförnum áratugum hefur meðalaldur byrjenda verið 16 til 18 ár en á síðustu árum hefur sá aldur færst neðar. Raddþroski er þó mjög einstaklingsbundinn og meta verður hvern einstakling sérstaklega.
Söngnám gerir um margt aðrar kröfur til nemenda en hljóðfæranám í rytmískri tónlist. Söngnemar þurfa meðal annars að fást við textatúlkun, framburð og míkrófóntækni. Þá gera ólíkir stílar rytmískrar tónlistar kröfur um mismunandi raddbeitingu. Spuni er þungamiðja í rytmísku tónlistarnámi og þurfa söngnemar að fást við hann eins og aðrir þó að forsendur séu um margt aðrar. Sumt er varðar spuna er léttara fyrir söngvara en annað mun erfiðara
Grunnám
Að jafnaði má gera ráð fyrir að söngnemendur ljúki grunnámi á einu til tveimur árum. Þessi viðmiðun er þó engan veginn einhlít þar sem undirbúningur nemenda er breytilegur og námshraði getur verið mismunandi.
Markmið í grunnnámi
Uppbygging kennslu í grunnnámi skal taka mið af eftirfarandi: Meginmarkmiðum tónlistarskóla sem sett eru fram í almennum hluta aðalnámskrár, sértækum markmiðum einstakra greinanámskráa, sértækum markmiðum einstakra skóla og síðast en ekki síst áhuga og þörfum nemenda. Leiðir að markmiðum geta verið mismunandi og nemendur ólíkir. Þess vegna hlýtur uppbygging námsins ætíð að verða einstaklingsbundin og viðfangsefni breytileg. Það er hlutverk kennara að leiða hvern nemanda í átt að settu marki með viðeigandi viðfangsefnum.
Við lok grunnnáms eiga söngnemendur að hafa náð eftirfarandi markmiðum:
Tónn og tækni Nemandi beiti líkamanum á eðlilegan og áreynslulausan hátt hafi tileinkað sér góða líkamsstöðu andi eðlilega og öndun fylgi hendingamótun hafi náð grundvallartökum á tónmyndun hafi náð allgóðum tökum á inntónun sýni skilning á sérhljóða- og samhljóðamyndun sýni raddbeitingu sem hæfir stíl tónlistarinnar geti sungið með heyranlegum styrkleikabreytingum hafi allgóð tök á hljóðnematækni hafi náð grundvallartökum á söng með stuðningi
Texti Nemandi syngi með skýrum textaframburði hafi tileinkað sér góðan íslenskan textaframburð hafi náð grundvallartökum á enskum textaframburði hafi þjálfast í að syngja á ensku og íslensku sýni sannfærandi textatúlkun sýni augljósan skilning á innihaldi texta
Hrynur og form Nemandi hafi öðlast allgott hrynskyn geti sungið með hryntilfinningu sem hæfir stíl tónlistarinnar skilji og þekki algengustu formgerðir sýni gott formskyn
Laglína Nemandi flytji laglínur á sannfærandi hátt, m.a. með persónulegri túlkun, hendingamótun og styrkbreytingum hafi grundvallarskilning á hlutverki söngvara í hljómsveit
Tónstigar og hljómar Nemandi hafi þjálfast reglulega í söng og notkun eftirfarandi tónstiga: dúr hreinn moll hljómhæfur moll dórískur mixólýdískur dúr-pentatónískur moll-pentatónískur blústónstigi hafi þjálfast reglulega í söng eftirfarandi þríhljóma: dúr moll stækkaður minnkaður sus4 hafi kynnst og skilji notagildi stækkaðra og minnkaðra þríhljóma skilji uppbyggingu og þekki helstu notkunarmöguleika allra framangreindra hljóma og tónstiga til spuna hafi öðlast grundvallarskilning á eðli og uppbyggingu kirkjutóntegunda syngi tónstiga og hljóma jafnt, hiklaust og utanbókar
Fjöldi og val verkefna Nemandi hafi kynnst og hafi skilning á ólíkum söngstílum rytmískrar tónlistar, þ.m.t. djassi, rokki og poppi hafi farið yfir viðunandi fjölda verkefna hafi fengist við fjölbreytt úrval verkefna hafi safnað a.m.k. fjórum þekktum lögum á safnlista, þar af a.m.k. einu lagi á íslensku og einu á ensku
Spuni Nemandi geti spunnið liðlega yfir einföld hljómferli á díatónískan máta sýni með spuna sínum góðan skilning á hljómrænu innihaldi tónlistarinnar hafi allgóð tök á notkun blús- og pentatóntónstiga, einkum til spuna yfir einfalt blúsform syngi með öruggri hryntilfinningu sýni sannfærandi hendingamótun í spuna sýni eðlilega framvindu í spuna sýni sannfærandi uppbyggingu í spuna sýni sannfærandi sjálfsprottna notkun á mismunandi styrk og styrkbreytingum, bæði í spuna og flutningi laglína hafi kynnst einföldu textaspunatungumáli87 hafi kynnst spuna út frá texta lagsins geti spunnið út frá hljómagöngum laga af sambærilegri þyngd og lög sem nefnd eru sem dæmi um prófverkefni á grunnprófi
Samspilsiðkun Nemandi hafi kynnst ýmiss konar samleik/samsöng hafi fengið tækifæri til að syngja með hljómsveit hafi kynnst ýmiss konar rödduðum söng og samsöng geti unnið undir leiðsögn í hljómsveitarstarfi og kór hafi kynnst algengasta taktslætti og bendingum stjórnanda hafi fengið tækifæri til að koma fram á tónleikum sem þátttakandi í samspili eða samsöng
Samspilshæfni Nemandi sýni með söng sínum eftirfarandi atriði í þeim mæli sem eðlilegt getur talist við lok grunnnáms: hlustun á meðspilara og virkt samspil frumkvæði í samleik að hann sé móttækilegur fyrir frumkvæði annarra í samleik
Lestur, leikur eftir eyra og utanbókarlærdómur Nemandi hafi þjálfast reglulega í nótnalestri hafi þjálfast reglulega í óundirbúnum nótnalestri hafi þjálfast reglulega í lestri bókstafshljóma til spuna hafi þjálfast reglulega í óundirbúnum lestri bókstafshljóma til spuna skilji og geti farið eftir algengustu leiðbeinandi orðum og táknum sem koma fyrir á lagblöðum88
Geti lesið og flutt án undirbúnings verkefni sambærileg þeim sem fengist var við í fyrri hluta grunnnáms hafi þjálfast reglulega í að flytja laglínur utanbókar hafi þjálfast reglulega í að læra hljómaganga utanbókar til notkunar í spuna hafi þjálfast reglulega í að læra einfaldar laglínur og hljómaganga eftir eyra
Túlkun, tjáning, stíll og framkoma Nemandi sýni eftirfarandi atriði í þeim mæli sem eðlilegt getur talist við lok grunnnáms: tilfinningu fyrir túlkun og hendingamótun blæbrigði og andstæður þekkingu og skilning á stíl tilfinningu fyrir samleik öruggan og sannfærandi leik persónulega tjáningu viðeigandi framkomu
Námslok Nemandi hafi undirbúið prófverkefni til flutnings á grunnprófi samkvæmt þessari námskrá
Söngur (yngri nemenda)
Áherslur: Markmiðið er að nemandinn:
Námsefni: Efni er einstaklingsmiðað hverju sinni og fer eftir rödd og áherslum nemandans.
Áherslur: Markmiðið er að nemandinn:
Námsefni: Efni er einstaklingsmiðað hverju sinni og fer eftir rödd og áherslum nemandans.
Hljóð- og upptökufræði
Hljóð- og upptökufræði er námsgrein fyrir lengra komna nemendur Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar. Markmið námsins er að gera nemendur sjálfbæra í upptökuveri skólans og að nemendur skólans noti aðstöðu og búnað sem skólinn hefur upp á að bjóða.
Markmið
Kennslutilhögun
Kennt er í hópum, 2 – 3 nemendur í einu, og eru nemendur ýmist við upptöku, uppstillingu búnaðar eða hljóðfæraleik. Námsmat er í formi umsagnar sem byggist á fyrrgreindum markmiðum.
Samspil og tónfundir
Samspil
Samspil er mikilvægur þáttur í hljóðfæranáminu og ánægja af slíku hópstarfi er jafnframt hvatning fyrir hvern og einn til framfara í tónlistarnáminu. Reynt er að sjá til þess að allir nemendur sem hafa til þess getu og þroska öðlist reynslu í samleik, jafnt í stórum hópum sem smáum. Í skólanum fer fram samspil af ýmsum toga, s.s. strengja-, gítar-, slagverks-, tréblásturs-, og rytmísku samspili ásamt blönduðu samspili.
Tónfundir – Tónleikar
Reglulegur flutningur tónlistar á tónleikum og tónfundum er mikilvæg reynsla fyrir nemendur. Gert er ráð fyrir að allir nemendur komi fram á tónfundum innan skólans, misjafnlega oft. Því er efnt til opinberra tónleika s.s. jólatónleika og vortónleika. Fastur liður í starfi skólans er að heimsækja hinar ýmsu stofnanir, svo sem sjúkra-, elli-, og hjúkrunarheimili og halda tónleika. Hópferðir eru farnar árlega t.d. á sinfóníutónleika eða í óperuna.
Námskeið
Ungir tónlistarmenn sem dvelja í Listhúsi Fjallabyggðar hafa verið með námskeið fyrir kennara og nemendur Tónlistarskólans, og hefur samstarfið gengið með miklum ágætum. Haldið verði áfram samstarfi við Listhúsið og tónlistarmennina sem oft koma frá framandi löndum og gaman er að kynnast þeirrar tónlistarhefð og uppruna.
Tónfræði
Í Aðalnámskrá tónlistarskóla eru orðin tónfræði og tónfræðigreinar notuð sem samheiti yfir tónfræði, tónheyrn, hljómfræði og tónlistarsögu. Nemendur eiga kost á tónfræðikennslu samhliða hljóðfærakennslu og er gott að miða við að nemendur byrji í tónfræðigreinum á öðru ári tónlistarnáms síns. Kennt er samkvæmt nýrri tónfræðinámsskrá fyrir tónlistarskóla. Þess er vel gætt að nemendur taki ekki áfangapróf á hljóðfæri eða söng nema þeir hafi lokið tilsettum prófum í tónfræði.
Námsefni
Námsefni er Opus frá 1 – 6 tónfræðibækurnar, verkefnabækur sem er sérstaklega gerðar fyrir yngri kynslóðina. Í hverri bók eru próf fyrir kennara til að meta stöðuna hjá nemandanum.
Námsmat
Námsmat er þrenns konar, áfangapróf, árspróf og umsögn.
Áfangapróf
Áfangapróf eru framkvæmd samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla og skiptast í grunn- mið- og framhaldsnám. Lengd námstíma innan hvers áfanga er mismunandi og ræðst af ástundun, getu og þroska hvers einstaklings. Kennari metur hvort og hvenær nemandi þreytir áfangapróf. Grunn- og miðnámi lýkur með prófi skv. námskrá Menntamálaráðuneytisins.
Árspróf
Árspróf eru haldin til að meta framfarir nemenda. Ársprófin eru af þremur mismunandi gerðum.
Umsögn
Þeir nemendur sem ekki eru tilbúnir til að taka próf, hvort sem þeir eru byrjendur eða þreyta ekki próf af öðrum ástæðum, fá umsögn. Til grundvallar umsagnar um nemanda er frammistaða hans í tímum, ástundun og yfirferð námsefnis. Prófskírteini eru veitt öllum sem taka vorpróf og áfangapróf. Á skírteininu er að finna einkunn og umsögn prófdómara um frammistöðu á prófi auk yfirlits yfir námsárangur vetrarins. Áfangaprófsskírteini og ársprófsskírteini eru afhent við skólaslit. Allir nemendur fá umsögn í lok vetrar.
Samstarf
Samstarf er við Tónlistarskóla Eyjafjarðar og Tónlistarskólann á Akureyri.
Uppskeruhátíðin Nótan
Nótan, uppskeruhátíð tónlistarskóla, er samstarfsverkefni Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna og Samtaka tónlistarskólastjóra. Uppskeruhátíðin er hugsuð sem ný vídd í starfsemi tónlistarskóla og standa vonir til að hátíðin verði í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í starfsemi tónlistarskóla fyrir aðstandendur skólanna, jafnt innan veggja þeirra sem utan. Tónlistarskólar landsins eru um 90 talsins. Þar fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og með hátíðinni er kastljósinu beint að þessum samfélögum og tónlistarnemendum veittar viðurkenningar fyrir afrakstur vinnu þeirra. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskóla við umhverfi sitt. Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að allir geti tekið þátt. Þátttakendur eru frá öllu landinu, á öllum aldri og efnisskráin endurspeglar ólík viðfangsefni tónlistarnemenda á öllum stigum tónlistarnáms.
Samstarf við Árskógarskóla, grunnskóla Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar
Tónlistarskólinn er með samning við grunnskóla sveitarfélagana um tónlistarkennslu. Öll börn í sex fyrstu bekkjum grunnskólanna fá tónmenntakennslu, þar sem lögð er áhersla á söng, nótnaskrift og almenn kynning á tónlist og tónlistarstefnum.
Samstarf við foreldra/forráðamenn
Samvinna við foreldra er mjög mikilvæg. Á haustönn er foreldravika þar sem foreldrum er boðið að fylgjast með kennslustund og einnig er í boði að hitta stjórnendur skólans í foreldraviku. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við kennara hvenær sem þurfa þykir og fylgjast vel með viskupósti sem er frá kennurum og stjórnendum skólans.
Nauðsynlegt er að foreldrar fylgist náið með hljóðfæranámi barna sinna, hvetji þau og fylgi eftir leiðbeiningum kennara um heimavinnu. Skólinn hefur tekið í notkun nemendabókhaldsvefinn Visku sem gerir kennurum kleift að halda utan um mætingar nemenda sinna á einfaldan hátt og að halda dagbókarfærslur fyrir hvern og einn nemanda sem hægt er að senda foreldrum í tölvupósti. Þannig geta foreldrar fylgst með hvers ætlast er til af nemandanum hverju sinni og fylgt því eftir.
Hagnýtar upplýsingar
Forföll
Forföll tilkynnist tímanlega til viðkomandi kennara eða á skrifstofu skólans í síma Magnús 8982516, þorvaldur 8489731, Þorsteinn 8527266.
Netfang skólans er tat@tat.is
Lögbundin frí
Lögbundin frí við skólann eru eftirfarandi: jólafrí og páskafrí samkvæmt skóladagatali, uppstigningardagur, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og annar í hvítasunnu.
Próf
Skólaárið 2020 -2021 verða árspróf í vikunni 26. - 29. apríl. Áfangapróf skólans eru um miðjan maí í samvinnu við prófanefnd tónlistarskólanna.
Hljóðfæraleiga
Hljóðfæri eru leigð út til byrjenda gegn gjaldi. Gjaldskrá er á heimasíðu skólans. Foreldrar skrifa undir leigusamning þar sem kveðið er á um ábyrgð á hljóðfærinu.
Nótnabækur
Nótnabækur vegna hljóðfæranáms og tónfræðináms þurfa nemendur að kaupa sjálfir og er nauðsynlegt að þeir eignist sitt eigið nótnasafn.
Innra eftirlit
Á hverju ári eru framkvæmdar kannanir á viðhorfi foreldra til skólastarfsins. Þetta er gert til að geta metið hvort skólinn stenst þær væntingar sem til hans eru gerðar. Einnig eru þessar kannanir stór hluti af því að fylgjast með hvort skólinn stenst þær kröfur sem hann gerir til sjálfs sín. Niðurstöður kannananna eru birtar á heimasíðu skólans í lok skólaársins. Tekið verður tillit til niðurstaðna kannanna, bæði jákvæðra og neikvæðra.
Fastir liðir í skólastarfinu
Rekstur og fjármögnun
Tónlistarskóli á Tröllaskaga er rekinn af tveimur sveitafélögum Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð og öll umsýsla skólann fer í gegnum skrifstofur Dalvíkurbyggðar.
Skólinn heyrir undir skólanefnd sem skipuð er af sveitafélaginu Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Formaður: Helga Helgadóttir, aðalmenn: Steinunni Jóhannsdóttir og Dagbjört Sigurpálsdóttir, Varamaður: Klemenz Bjarki Gunnarson, fulltrúi kennara: Ave Kara Sillaods, starfsmenn eru Gísli Bjarnason og Ríkey Sigurðsbjörnsdóttir og Magnús G Ólafsson.
Tónlistarskólinn á Tröllaskaga
Gjaldskrá 2021.
Börn:
Heilt nám 79.900. kr. Aukahljóðfæri, fullt nám 57.228. kr.
Hálft nám 53.477. kr. Aukahljóðfæri, hálft nám: 44.625. kr.
Kór 5.000. kr.
Fullorðnir:
Heilt nám: 103.870. kr.
Hálft nám: 73.260. kr.
Hljóðfæraleiga: 10.832. kr.
Skólagjöldum skipt í fjóra gjaldaga okt. – des – feb. – apr.
Fullorðnir greiða alltaf fullt gjald, afsláttur reiknast frá fyrsta barni.
1. Barn greiðir 100%
2. Barn greiðir 80%
3. Barn greiðir 60%
4. Barn greiðir 40%
Hljóðfæraleiga. Skólinn leigir út hljóðfæri á sanngjörnu verði og eiga nemendur kost á því að halda þeim í allt að 2 ár. Að þeim tíma liðnum er reiknað með að þeir eignist sín eigin hljóðfæri.
Staðfestingargjald (hluti af skólagjaldinu) greiðist í upphafi skólaárs, eftirstöðvum er dreift á þrjár greiðslur.
Hljóðfæraleiga greiðist í einu lagi að haust
Heimildaskrá Aðalnámsskrá tónlistarskóla (2000). Reykjavík: Menntamálaráðuneytið
Skíðabraut 12. Dalvík Aðalgötu 13. Ólafsfirði Aðalgötu 27. Siglufirði Sími á skrifstofu: Dalvík 4604990 Ólafsfirði 4649210 Siglufirði 4649130 Netfang: tat@tat.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: tat@tat.is eða í síma D: 4604990 og F: 4649210