Samantekt TÁT 2019.

Nýárstónleikar 5. janúar 2019.

Laugardaginn 5 janúar stóð karlakór Fjallabyggðar, undir stjórn Elíasar Þorvaldssonar ásamt Tónlistarskólanum á Tröllaskaga, fyrir nýárstónleikum í Siglufjarðarkirkju. Þar komu fram auk karlakórsins og hljómsveitar; kirkjukórinn, einsöngvarar, hljómsveit (undir stjórn Guðmanns Sveinssonar kennara), nemendur 4 bekkjar og nemendur tónlistarskólans. Kynnir tónleikanna var Þorsteinn Sveinsson sem fór á kostum. Í upphafi flutti Pál Barna Szabó orgelverk eftir Bach.

Óhætt er að segja að tónleikarnir hafi verið hinir glæsilegustu og ákaflega vel undirbúnir. Dagskráin mjög fjölbreitt og skemmtileg. Hljóðmaður tónleikanna var að sjálfsögðu Gunnar Smári Helgason.

Tilkoma tónleikanna var sú að Karlakór Fjallabyggðar hefur æft í húsnæði tónlistarskólans á Siglufirði og vildu þeir halda þessa tónleika til styrktar skólanum í þakklætisskyni. Fjölmenni var á tónleikunum.

 

Uppskeruhátíða Tónlistarskólans á Tröllaskaga

Uppskeruhátíð Tónlistarskólans á Tröllaskaga var haldin þriðjudaginn 26. mars í Tjarnarborg og tóku um 40 nemendur og kennarar þátt í hátíðinni. Fjölbreytt dagskrá var í boði og voru tónleikarnir vel sóttir og fengu nemendur skólans mikið lof fyrir frammistöðuna. Eftir tónleikana voru nemendur skólans kallaðir upp og var öllum afhent viðurkenningarspjald fyrir þátttökuna. Að lokum kom stjórn Karlakórs Fjallabyggðar og afhenti skólanum peningagjöf upp á 330.000. kr. sem var nýtt til kaupa á hljóðfærum. Var þetta ágóði af nýárstónleikunum.

 

Annað hjá TÁT 2019.

Í ár var ákveðið að senda enga þátttakendur í svæðiskeppni Nótunnar þar sem stærsti hluti eldri nemenda voru fyrir sunnan á Samfés og margir í kennaraliðinu uppteknir með Sinfóníuhljómsveit  Norðurlands.

Prófavika var 6-10 maí. Stærstur hluti nemenda þreyttu árspróf og einhverjir tóku áfangapróf að venju.

Vortónleikararnir voru dagana 14, 15 og 16 maí, u.þ.b 90 atriði samanlagt í sveitarfélögunum tveimur.

Upptökuvika var dagana 20-24 maí. Þar spreyttu nemendur og kennarar sig við léttar upptökur á vinnu nemenda.

Skólaslit tónlistaskólans voru svo miðvikudaginn 29. maí kl. 16.00. í Dalvíkurkirkju og í Tjarnarborg kl. 17.00.

Kennsla hefst að hausti 30 ágúst eftir starfsdaga.

Haustþing tónlistarskólanna haldið í Hofi 11 október, hefðbundin dagskrá að mestu.

Hausttónleikar skólans voru haldnir dagana 22,23 og 24 október, og var þátttaka góð að venju og tókst mjög vel til.

Starfsdagur var í TÁT miðvikudaginn 6. nóvember og síðan hófst vetrarfrí fimmtudaginn 7. nóvember. Vetrarfríið nýttu flestir kennarar til námsferðar til Basel í Sviss sem Ella og Matti skipulögðu. Lagt var af stað 5 nóvember og heim þann 10. Var ferðin frábær í alla staði og ákaflega vel skipulögð.

Í síðari hluta nóvember var nemendum boðið í bíó í tónlistarskólanum, bæði í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Tilgangurinn, uppbrot frá hefðbundnum tónfundum.

Þemavika skólans var dagana 25-29 nóvember og var þemað jólalaga-samleikur nemenda sem skilaði sér svo á jólatónleikum skólans.

Kennarar hittust svo 30 nóvember í Bergi á jólahlaðborði og áttu góða stund saman utan vinnu.

Jólatónleikarnir okkar voru á dagskrá dagana 10-12 des en vegna óveðurs og rafmagnsleysis fór allt skipulag á hliðina. Það tókst að koma dagskránni að mestu á vikuna eftir. Í þeirri sömu viku fóru kennarar sinn hefðbundna jólarúnt í skólana í byggðarlögunum.

Jólafrí hófst að loknum litlujólum þann 20 des.

Auk þessarar upptalningar tóku nemendur og kennarar þátt í ýmsum viðburðum sveitarfélaganna á árinu sem leið sem og fjölda hefðbundinna tónfunda.

Þorvaldur Eyfjörð Kristjánsson