NorðurOrg 2022

Íris og Úlfhildur áfram á Söngkeppni Samfés

NorðurOrg 2022 fór fram í félagsheimilinu á Hvammstanga föstudagskvöldið 25. mars sl. Um er að ræða landshlutakeppni þar sem 5 atriði frá Norðurlandi eru valin áfram til að taka þátt í söngkeppni Samfés sem fer fram laugardaginn 30. apríl. nk. Yfir 300 unglingar komu saman frá félagsmiðstöðvum víðsvegar af Norðurlandi til að hlusta á keppendur og skemmta sér á balli á eftir. Við létum ekki okkar eftir liggja og sendum fulla rútu af stuðningskrökkum á Hvammstanga, en þetta er í fyrsta skiptið í tvö ár sem félagsmiðstöðvarnar ná að halda sameiginlegt ball. Var því gleðin mikil meðal unglinganna að fá loksins að hitta krakka úr öðrum félagsmiðstöðvum og rifja upp danstakana.

Félagsmiðstöðin Týr var eitt þeirra 5 atriða sem komst áfram. Keppendur félagsmiðstöðvarinnar í ár voru þær Íris Björk Magnúsdóttir og Úlfhildur Embla Klemenzdóttir. Stelpurnar sungu lagið Riptide eftir Vance Joy. Þá sáu þær einnig alfarið um undirspil, en Íris Björk spilaði á gítar og Úlfhildur Embla á ukulele, en báðar hafa þær lært á hljóðfæri og söng við Tónlistarskólann á Tröllaskaga.

Á hverju ári halda Samtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi (Samfés) söngkeppni á höfuðborgarsvæðinu. Hver landshluti fær að senda nokkra keppendur á þessa keppni, sem undanfarin ár hefur verið sjónvarpað beint á Rúv.

Undanfarinn er sá að félagsmiðstöðvarnar hér á norðurlandi halda undankeppni síðustu helgina í janúar ár hvert (seinkaði aðeins í ár vegna veiru fjandans), sú keppni er kölluð NorðurOrg. Fimm atriði eru valin til að taka þátt fyrir hönd félagsmiðstöðva á norðulandi í aðalkeppni Samfés.

Stúlkurnar munu því keppa fyrir okkar hönd Söngkeppni Samfés sem fram fer í 30. apríl nk. Félagsmiðstöðin mun að sjálfsögði fylgja þeim eftir og munum við fara með (vonandi) fulla rútu af stuðningsmönnum til að fylgjast með keppninni. En söngkeppni er hluti af árlegum SamFesting Samfés sem samanstendur af balli og söngkeppni á hverju ári.

Óskum við þeim til hamingju með áfangann og óskum þeim góðs gengis á Söngkeppni Samfés 2022.